Almennir skilmálar HS Orku
1. Gildissvið
Eftirfarandi eru viðskiptaskilmálar HS Orku ehf., kt. 680475-0169, Svartsengi, 240 Grindavík.
Viðskiptaskilmálar þessir gilda um öll viðskipta- og samningssambönd HS Orku og viðskiptavina fyrirtækisins að meðaltöldum raforkusölusamningum, nema um annað sé sérstaklega samið. Viðskiptaskilmálar þessir skoðast sem staðlaðir samningar um viðskipti með raforku milli sölufyrirtækis og almenns notanda samkvæmt 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1050/2004. Með fyrstu greiðslu raforkureiknings staðfestir viðskiptavinur þjónustusamband sitt við HS Orku, sem og gildi viðskiptaskilmála þessa og er þar með kominn á gildandi raforkusölusamningur. Viðskiptaskilmálar þessir gilda um alla raforkusölusamninga hvort sem þeir eru gerðir skriflega, munnlega, með rafrænum hætti eða staðfestir með fyrstu greiðslu raforkureiknings. Athugið að viðskiptaskilmálar þessir taka eingöngu til sölu á raforku, en ekki til flutnings og dreifingar hennar.
Um raforkusölu HS Orku gilda raforkulög nr. 65/2003, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1050/2004..
2. Notkun
Með beiðni um að koma í viðskipti við HS Orku veitir viðskiptavinur fyrirtækinu umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun viðskiptavinar frá viðkomandi dreifiveitu eða Netorku. Umboðið nær meðal annars til upplýsinga um númer veitu og mælis, dreifisvæði, heimilisfang, dreifiveitutaxta, áætlaða ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestur, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðlul og stafafjölda mælis. Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru notkunartölur afhentar allt að 24 mánuði aftur í tímann. Dreifiveitufyrirtæki ber ábyrgð á mælingu á orkunotkun kaupanda á veitusvæði sínu. Til að áætla um orkunotkun nýtir fyrirtækið sér raforkunotkun viðskiptavinar. Ef um er að ræða nýjan viðskiptavin sem ekki hefur áður keypt raforku er HS Orku heimilt að áætla notkun hans með hliðsjón af sambærilegri notkun.
Ef viðskiptavinur er í söluaðilaskiptum við HS Orku þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 10. gr. reglugerðar um raforkuviðskipti sem segir að almennum notanda sé heimilt að segja upp raforkusölusamning við sölufyrirtæki með þriggja vikna fyrirvara á gildistíma hans, sem taki þá gildi um næstu mánaðarmót.
3. Verð og greiðsluskilmálar
Verð fer eftir almennri verðskrá HS Orku hverju sinni, nema um annað sé samið. Almenn verðskrá er ávallt uppfærð og kynnt á vef HS Orku og hún kemur einnig fram á reikningi viðskiptavinar. Orkugjaldið (kr/kWh) greiðist fyrir hverja mælda orkueiningu í beinu hlutfalli við orkunotkun.
Orkuverð innifelur eingöngu verð á söluhluta raforku. Auk þess að innheimta orkuverð þá innheimtir HS Orka skatta og gjöld vegna raforkunotkunar skv. gildandi löggjöf hverju sinni, t.a.m. orkuskatt. Verði breyting á gjöldum eða sköttum hefur það því áhrif á þá fjárhæð sem innheimt er, t.a.m. ef gjöld fyrir innmötun raforku frá virkjunum HS Orku eða virkjunum sem HS Orka kaupir raforku af verða lögð á fyrirtækið af hálfu opinberra flutnings- eða dreifiaðila áskilur HS Orka sér rétt til að innheimta þau gjöld af viðskiptavinum fyrirtækisins á mánaðarlegum reikningum í hlutfalli við notkun. Virðisaukaskattur, eins og hann er ákveðinn í lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 hverju sinni, leggst ofan á raforkugjald að viðbættum raforkuskatti skv. 5. gr. laga nr. 23/2009 í samræmi við lög.
Viðskiptavinur skal greiða mánaðargjald skv. reikningi frá HS Orku. Gjalddagi er á útgáfudegi reiknings og eindagi 23. dag sama mánaðar.
Dráttarvextir reiknast við kröfu sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ef reikningur er ekki greiddur á gjalddaga. HS Orka innheimtir seðilgjald eða tilkynningar- og greiðslugjald vegna birtingar reikninga og er gjaldið breytilegt eftir því hvort um er að ræða greiðsluseðla á pappír, greiðslukort eða greiðsla reikninga í netbanka. Auk dráttarvaxta innheimtir HS Orka allan innheimtukostnað samkvæmt gildandi reglum. HS Orku er jafnframt heimilt að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar með aðstoð dreifiveitu, ef viðskiptaskuld lendir í vanskilum. Í slíkum tilvikum er dreifiveitu heimilt að innheimta lokunar- og opnunargjöld hjá viðskiptavini.
4. Uppsögn samnings
Raforkusölusamningar HS Orku eru ótímabundnir, nema um annað sé samið. Báðum aðilum er heimilt að segja upp raforkusölusamning með eins mánaðar fyrirvara og tekur uppsögnin gildi 1. hvers mánaðar frá tilkynningu þar um.
5. Riftun og synjun samninga
Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1050/2004, sbr. 11. gr. er HS Orku heimilt að rifta raforkusamning við viðskiptavin greiði hann ekki í kjölfar innheimtuaðgerða. Verði viðskiptavinur gjaldþrota er HS Orku heimilt án fyrirvara að rifta samningi aðila. Viðskiptavinur getur einnig rift samningi sínum við HS Orku ef fyrirtæki vanefnir skyldur sínar með verulegum hætti.
HS Orka áskilur sér rétt til að synja nýjum aðila, eða nýjum notkunarstað núverandi viðskiptavinar, sem ekki hefur gert sérstakan samning við fyrirtækið um afhendingu á raforku vegna m.a. fyrri vanskila, stöðu á vanskilaskrá, úrskurðar um gjaldþrot eða ef notkunarferill hans er þess eðlis að HS Orka er erfitt um vik að afhenda umbeðið magn af orku til hans. Hafni HS Orka raforkuviðskiptum við viðskiptavin getur hann borið það undir Orkustofnun.
6. Ábyrgðarreglur
HS Orka ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til óviðráðanlegra atvika, svo sem vegna orkuskorts, styrjalda og náttúruhamfara, og skal skaðabótaréttur viðskiptavinar og HS Orku takmarkast við beint tjón. HS Orka ber ekki ábyrgð á skyldum flutningsfyrirtækis orku og dreifiveitu, samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003. Tengisamningur við dreifiveitu er ekki hluti af samningi viðskiptavinar og HS Orku og ber dreifiveita meðal annars ábyrgð á uppsetningu, rekstri og viðhaldi mælibúnaðar sem og söfnun, leiðréttingu, staðfestingu og dreifingu mæligagna. Ef erfiðleikar eru við orkuöflun er HS Orku heimilt að skerða afhendingu raforku, en tilkynning um slíka skerðingu er tilkynnt eins og unnt er kæmi til þess.
7. Ágreiningsmál
Komi upp ágreiningur milli HS Orku og viðskiptavinar þá skulu báðir aðilar leitast við að leysa hann í sátt og samlyndi. Verði sáttum ekki komið að skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
8. Breytingar á viðskiptaskilmálum
HS Orka áskilur sér einhliða rétt til þess að breyta viðskiptaskilmálum. Breytingar taka gildi frá birtingu þeirra á heimasíðu HS Orku.
9. Persónuvernd
Til þess að uppfylla skyldur raforkusölusamnings skv. skilmálum og lögum þarf HS Orka að vinna með persónuupplýsingar um viðskiptavin. Um vinnslu persónuupplýsinga fer skv. persónuverndarstefnu HS Orku sem aðgengileg er á heimasíðu fyrirtækisins.
10. Gildistaka
Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi frá og með 1.janúar 2022.