Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Stærsti hraðhleðslugarður landsins tekinn í notkun

Velvilji Reykjanesbæjar og HS Veitna skiptu höfuðmáli í að ýta verkefninu úr vör en það voru jarðvinnuverktakinn Ellert Skúlason ehf. og rafverktakafyrirtækið Rafal ehf. sem sáu um framkvæmdir.

Ea038de8930705cfb74eca3921fc8088eb7ae7d1

Stærsti hraðhleðslugarður landsins var formlega tekinn í notkun síðdegis í gær en hann er staðsettur við Aðaltorg í Reykjanesbæ, steinsnar frá Keflavíkurflugvelli. Breska hraðhleðslufyrirtækið InstaVolt stendur að uppbyggingunni í samstarfi við HS Orku. Alls eru 20 hleðslustöðvar aðgengilegar við Aðaltorg en InstaVolt áformar að byggja upp 200 nýjar hleðslustöðvar víðs vegar um landið á næstu tveimur árum.

Framkvæmdir hófust í byrjun febrúar og gekk uppbyggingin bæði hratt og vel. Velvilji Reykjanesbæjar og HS Veitna skiptu höfuðmáli í að ýta verkefninu úr vör en það voru jarðvinnuverktakinn Ellert Skúlason ehf. og rafverktakafyrirtækið Rafal ehf. sem sáu um framkvæmdir.

Veruleg uppbygging innviða

InstaVolt er öflugasta hraðhleðslufyrirtæki Bretlands. Verkefnið hér á landi markar tímamót fyrir fyrirtækið, sem hefur til þess einskorðað sig við Bretlandsmarkað, en með því hefur fyrsta skrefið verið stigið inn á alþjóðlega markaði. InstaVolt er þekkt fyrir öruggar og snertilausar kortagreiðslulausnir og því mun hvorki þurfa hleðslulykla né hleðsluapp til að hlaða. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að fjárfestingar InstaVolt í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á Íslandi styðji vel við orkuskipti á Íslandi og loftslagsmarkmiðin um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Fyrirætlanir InstaVolt miða einnig að því að styðja við bílaleigufyrirtæki sem hyggja á frekari rafvæðingu bílaflotans og fengu fulltrúar frá bílaleigunum sérstaka kynningu í gær á áherslum InstaVolt í þeim efnum.

Rafbílar flýta fyrir orkuskiptum

Í tilkynningu InstaVolt segir að tölur frá árinu 2022 sýni að markaðshlutdeild rafbíla á Íslandi sé í kringum 60%, sem er það hæsta í heimi næst á eftir Noregi. Ísland henti því vel til rafbílavæðingar þar sem akstursleiðir séu ekki langar miðað við það sem þekkist erlendis og nægt framboð sé af endurnýjanlegri raforku á hagkvæmu verði. Auk þess sé allt jarðefnaeldsneyti flutt inn til landsins. Rafbílar skipti því verulegu máli í þeirri vegferð að flýta fyrir orkuskiptum svo hægt verði að standa við loftslagsskuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu, en ætla megi að samgöngur á landi séu um 20% af allri kolefnislosun landsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, var viðstaddur opnunarathöfnina við Aðaltorg í gær og sagði m.a. af því tilefni: „Íslandi hefur tekist vel til í orkuskiptum í samgöngum á landi og er í öðru sæti á eftir Noregi í sölu á rafbílum og tengiltvinnbílum. Eigi Ísland að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um full orkuskipti fyrir árið 2040 verðum við að hraða orkuskiptunum. Fjölgun hraðhleðslustöðva ætti að auðvelda okkur að ná þeim markmiðum okkar.“

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, sagði af sama tilefni: „Við vildum tryggja okkur samstarfsaðila með langa og farsæla reynslu af hraðhleðslumöguleikum og því varð InstaVolt fyrir valinu. Við fögnum komu þeirra á íslenska markaðinn og hlökkum til að taka þátt í enn frekari innviðauppbyggingu með fyrirtækinu vítt og breytt um landið.“

Adrian Pike, stjórnarformaður InstaVolt og jafnframt stjórnarformaður HS Orku, sagði við athöfnina: „Ég er mjög stoltur af þeim áfanga sem InstaVolt og HS Orka hafa náð hér í dag. Framúrskarandi verkefnateymi beggja fyrirtækja hafa skapað tækifæri sem styðja vel við innviðauppbyggingu fyrir rafbílaflota landsins. Samningurinn um verkefnið felur í sér verulegar fjárfestingar hér á landi af hálfu InstaVolt og hann hefur lagt grunninn að einstöku samstarfi sem leiðir til þess að enn fleiri fólksbílar á Íslandi verða knúnir með 100% endurnýjanlegri raforku. Við hlökkum til að fylgja þessu eftir með röð hraðhleðslustöðva vítt og breytt um landið.“