Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Lilja ráðin deildarstjóri Auðlindastýringar HS Orku

Dr. Lilja Magnúsdóttir hefur tekið við stöðu deildarstjóra Auðlindastýringar HS Orku. Hún var áður yfirforðafræðingur fyrirtækisins en hún gekk fyrst til liðs við HS Orku haustið 2020.

Lilja

Lilja ráðin deildarstjóri Auðlindastýringar HS Orku

Dr. Lilja Magnúsdóttir hefur tekið við stöðu deildarstjóra Auðlindastýringar HS Orku. Hún var áður yfirforðafræðingur fyrirtækisins en hún gekk fyrst til liðs við HS Orku haustið 2020. Lilja tekur við starfinu af Guðjóni Helga Eggertssyni, sem gegndi því um fimm ára skeið.


„Ég er spennt fyrir því að leiða þessa öflugu deild sem Auðlindastýringin er og rækta áfram þekkingar- og nýsköpunarhugsunina sem er ríkjandi hjá HS Orku. Það eru spennandi verkefni framundan hjá okkur en deildin sér meðal annars um að ákvarða staðsetningar á nýjum borholum, við mælum og vöktum mikilvæga þætti í jarðhitakerfunum auk þess að þróa hugmynda- og reiknilíkön. Markmiðið er að skilja hegðun jarðhitakerfanna og nýta auðlindirnar á sem hagkvæmastan hátt í sátt við umhverfið.” 


Lilja lauk grunn- og meistaranámi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands og doktorsprófi frá orkuverkfræðideild Stanford háskólans í Bandaríkjunum árið 2013. Í doktorsverkefninu rannsakaði Lilja bestu nýtingu jarðhita með því að tengja reiknilíkön við mælingar. Þar þróaði hún aðferð til að meta sprungutengingar á milli borholna með rafleiðni.


Að loknu doktorsnámi tók Lilja við stöðu nýdoktors við Lawrence Berkeley National Laboratory. Þaðan lá leiðin til Tesla í Kaliforníu þar sem hún starfaði sem yfirverkfræðingur í hönnun og þróun við  sólarrafhlöðudeild fyrirtækisins. Árið 2016 hóf Lilja störf við jarðhitarannsóknir með notkun gervigreindar við verkfræðideild Háskóla Íslands.


Lilja er uppalin í Reykjavík en var búsett í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum í 11 ár. Eiginmaður hennar er Gregory Zarski og eiga þau tvö börn.


HS Orka er þriðji stærsti orkuframleiðandi landsins en fyrirtækið á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Svartsengi og Reykjanesvirkjun, auk Brúarvirkjunar í Biskupstungum og Fjarðarárvirkjana í Seyðisfirði.