Þann 10. október s.l. hefði Ingólfur Aðalsteinsson, veðurfræðingur og fyrsti forstjóri Hitaveitu Suðurnesja orðið 100 ára. Ingólfur var fyrsti starfsmaður Hitaveitu Suðurnesja og gegndi starfi forstjóra árin 1975-1992. Af þessu tilefni komu afkomendur hans færandi hendi í höfuðstöðvar HS Orku á afmælisdaginn með koparlágmynd af Ingólfi eftir Erling Jónsson ásamt litlu líkani af orkuverinu í Svartsengi, sem verið hafði í eigu Ingólfs.
Albert Albertsson,verkfræðingur, hugmyndasmiður og fyrrverandi starfsmaður HS Orku, veitti gjöfunum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. Það var einmitt Ingólfur sem réði Albert fyrst til starfa hjá Hitaveitu Suðurnesja og voru þeir því samstarfsmenn um tíma.
Ingólfur var fæddur í Miðdölum í Dalasýslu árið 1923 en hann lést í Reykjavík árið 2012. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og nam veðurfræði í Svíþjóð þaðan sem hann útskrifaðist árið 1949. Hann starfaði á Veðurstofu Íslands í Reykjavík og á Keflavíkurflugvell til ársins 1975 þegar hann var ráðinn til Hitaveitu Suðurnesja sem fyrsti starfsmaður hennar og tók stuttu síðar við forstjórastöðu. Ingólfur var mikill talsmaður þess að heilsulind yrði byggð upp í tengslum við jarðsjóinn frá orkuverinu í Svartsengi sem síðar fékk nafnið Bláa lónið. Í umfjöllun Víkurfrétta í tengslum við 100 ára ártíð Ingólfs má lesa nánar um það hvernig Ingólfur talaði fyrir verkefninu um árabil áður en Bláa lónið var loks stofnað árið 1992, árið sem Ingólfur lét af störfum.