Losun CO2 á eldvirkum svæðum
Háhitasvæði á Íslandi eru öll nátengd virkum eldstöðvum sem eru flest staðsett á flekaskilunum sem liggja í gegnum Ísland. Varminn sem streymir upp kemur inn á svæðið frá grunnstæðum kvikuinnskotum eða kvikuhólfum. Þegar kvikuinnskot kólna losna kvikugös sem leita flest upp í átt að yfirborði þar sem flest þeirra eru léttari en vatn. Hluti kvikugasanna hvarfast við jarðhitavatnið í kerfinu eða við bergið í kring og falla út sem útfellingar.
Kvikugösin eru að mestu koltvísýringur (CO2) eða brennisteinsvetni (H2S) en jafnframt er lítill hluti þeirra m.a. vetni (H2), nitur (N2) og metan (CH4). Stór hluti kvikugasa eru gróðurhúsa lofttegundir þ.á.m. CO2. CO2 leysist upp að hluta til þegar það kemst í snertingu við jarðhitavatn; sé vatnið yfirmettað af karbónatsteindum leitar CO2 til að hvarfast við steindir úr bergi í kring og getur myndað kalk útfellingar (CaCO3), eða leitar sér leið út úr jarðhitakerfinu með afrennsli (t.d. grunnvatni) eða leitar til yfirborðs í gegnum sprungur eða jarðveg. Hugmyndalíkan fyrir uppruna og uppstreymi CO2 í gegnum eldvirk háhitakerfi má sjá á mynd 1.
Losun GHL á jarðhitasvæðum
Vinnslu á jarðhitasvæðum fylgir losun gróðurhúsalofttegunda sem eru nú þegar til staðar í kerfinu. Borholur fara misdjúpt inn í kerfið og hleypa upp gufu og vatni ásamt þeim gösum sem eru til staðar í kerfinu sem ferðast í gegnum vinnslukerfi jarðvarmavirkjanna og út í andrúmsloftið. Losun gasa, einkum CO2 á jarðhitasvæðum, er mismikil eftir virkni svæðanna og tektónískri uppbyggingu svæðisins. Þær jarðhræringar sem hafa gengið yfir Reykjanes síðustu ár hafa til að mynda haft áhrif tektónísku uppbyggingu vinnslusvæða HS Orku þar sem mikill fjöldi nýrra sprugna hafa myndast á jarðhitasvæðunum sem gera gösum greiðari leið upp til yfirborðs.
Mælingar á losun gass á yfirborði jarðhitasvæða hefur lítið breyst síðustu 20 ár. Utanaðkomandi þættir geta skekkt mælingarnar t.d. veðurfar, en mikilvægt er að taka mælingar af yfirborði jarðhitasvæða við réttar veðuraðstæður. Annar þáttur sem getur skekkt mælingarnar er staðstening útstreymis gassins, en erfitt er að áætla hvar á jarðhitasvæðinu mesta gasið er að. Á jarðhitasvæðum þar sem mikið er um jarðhræringar geta sprungur átt það til að myndast á svæðinu og búið til greiðari leið fyrir gös sem leita upp til yfirborðs og mikið magn gass getur losnað á stuttum tíma, erfitt er að mæla þessa losun.
Hvort eigi að líta á útstreymi GHL frá jarðvarmavirkjunum sem losun af mannavöldum eða sem náttúrulega losun er álitismál og óvissa er um það í alþjóðasamfélagi. Rannsóknir á sviði náttúrulegrar losunar jarðhitasvæða hafa sýnt fram á óvissu sem er til staðar þegar viðkemur mælingum á eldvirkum svæðum.
Losunarkræfni HS Orku
Útgefin losunarkræfni HS Orku miðast við að öll bein losun frá jarðvarmavirkjunum fyrirtækisins sé manngerð, nema rannsóknir leiði annað í ljós. Fyrirtækið metur losunarkræfni starfseminnar út frá árlegri losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1, 2 og 3 og framleiddri raforku og seldum varma
HS Orka hefur sett sér markmið um 40% lækkun fyrir 2030 miðað við árið 2014. Það jafngildir markmiði um lækkun losunarkræfni í 26 g CO2íg/kWh. Árið 2022 var losunarkræfnin 34 g CO2íg/kWh.
Auk þess lauk HS Orka við lífsferilsgreiningar fyrir Svartsengi og Reykjanesvirkjun árið 2023 hvers niðurstöður sýna losunarkræfni yfir áratuga líftíma þessara virkjana. Losunarkræfni Svartsengis var metin 43,5 g CO2íg/kWh en Reykjanesvirkjunar 17,1 g CO2íg/kWh. Sé þetta sett í samhengi við flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (EU Taxonomy) þá skal losun jarðvarmavirkjunar vera undir 100 g CO2íg/kWst til að fjárfesting í orku teljist sjálfbær.