Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Stækkun Reykjanesvirkjunar formlega í rekstur

Sunna Björg og teymi hennar leiddu verkefnið á undirbúnings- og framkvæmdastigi en framkvæmdir hófust fyrst í ársbyrjun 2021 þótt rannsóknir og þróun hafi staðið yfir allt frá árinu 2009.

R4

Stækkun Reykjanesvirkjunar, REY4, er nú formlega komin af framkvæmdastigi yfir í rekstur en rekstrarsvið HS Orku tók formlega við REY4 af tæknisviði fyrirtæksins í lok síðasta mánaðar. Með stækkuninni eykst framleiðslugeta Reykjanesvirkjunar úr 100 MW í 130 MW. Verkefnið er einstakt á heimsvísu því í stað þess að bora nýjar holur þróaði HS Orka, í samstarfi við innlenda sérfræðinga, nýja leið til að áframnýta auðlindina. Allar áætlanir um kostnað og framkvæmdatíma stóðust auk þess sem öryggismál voru í forgrunni á framkvæmdatímanum í góðu samstarfi við aðalverktakann Ístak.

Áætlanir stóðust og gott betur

Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku, afhenti Kristni Harðarssyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs, stækkunina til reksturs með táknrænum hætti við hátíðlega athöfn í Reykjanesvirkjun í lok apríl. Sunna Björg og teymi hennar leiddu verkefnið á undirbúnings- og framkvæmdastigi en framkvæmdir hófust fyrst í ársbyrjun 2021 þótt rannsóknir og þróun hafi staðið yfir allt frá árinu 2009. Sunna Björg segir verkefnið almennt hafa gengið vel og tekist hafi að fá samkeppnishæf verð í stærstu verkþætti ásamt því að fá reynslumikla verktaka í verkið. „Við byrjuðum í miðjum heimsfaraldri og þótt faraldurinn sjálfur hafi ekki haft teljandi áhrif á verkstaðinn urðu seinkanir í aðfangakeðjunni af völdum hans og stríðsins í Úkraínu. Svo má segja að veður hafi sett sitt mark á verkið og tafið ýmis útiverk. Þrátt fyrir þessar áskoranir þá kláraðist verkefnið á samþykktri kostnaðaráætlun og vélin fór í rekstur á undan áætlun rétt fyrir jól.” Sunna Björg telur margar ástæður liggja að baki því að svo vel tókst til: „Við vorum með öflugt og reynslumikið verkefnateymi, þar sem valinn maður var í hverri stöðu, undirbúningurinn var góður og áhættustýringin vönduð. Góð samskipti og samvinna á milli verkefnateymisins og lykilverktaka skiptu einnig sköpum.”

Einstök lausn á heimsvísu

Segja má að umhverfisáhrif af framkvæmdunum séu lítil sem engin en hugmyndafræðin er sú að fullnýta þá orku og þá vökva sem tekin eru úr jörðu. Í stað nýrra borholna var þróuð leið til að áframnýta auðlindina sem Reykjanesvirkjun byggir á með því að fanga affallsvarmann frá virkjuninni. Jarðsjórinn sem borað er eftir fyrir Reykjanesvirkjun er 270°C heitur og gufan er nýtt til að framleiða 100 MW af rafmagni með tveimur háþrýstitúrbínum. Þá er enn eftir umtalsverð orka í vökvanum sem orðinn er um 200°C. Með tæknilausnum, sem sérfræðingar HS Orku þróuðu í samstarfi við innlenda sérfræðinga í jarðhitakerfum, er nú hægt að nýta þann vökva enn frekar. Meðal verkefna sérfræðinganna var að finna lausnir á því að fjarlægja úrfellingar á borð við kísil úr vatninu áður en orkan er nýtt.

Öryggismál í forgrunni

HS Orka leggur ríka áherslu á öryggismál í allri starfsemi sinni, jafnt í rekstri og viðhaldi sem nýframkvæmdum, og kappkostar að fylgja ítrustu stöðlum og verkferlum á sviði öryggismála. Hallgrímur Smári Þorvaldsson, öryggisstjóri HS Orku, segir að heilt yfir hafi tekist vel til í öryggismálum á verktíma REY4:  „Á þeim tveimur árum sem framkvæmdir stóðu yfir bárust um 1800 tilkynningar, jafnt stórar sem smáar, sem vörðuðu öryggi, heilsu og umhverfi. Brugðist var við þeim í góðu samstarfi við aðalverktaka, sem hafði yfirumsjón með öryggismálum á svæðinu, og urðu engin alvarleg slys á framkvæmdatíma. Slíkt tilkynningakerfi ásamt öðrum virkum stýringum er forsenda þess að hægt sé að fyrirbyggja alvarleg atvik.”

Hallgrímur Smári segir að sem verkkaupi vilji HS Orka innleiða framfarir í öryggismálum í byggingariðnaði á Íslandi en „best practices” hér á landi séu ekki sambærilegar við það sem best gerist erlendis. “Við þurfum öll sem eitt að leggjast á árar og lyfta öryggismálum í byggingariðnaðinum hér á landi upp á hærra plan.”

Næsta stórframkvæmd í Svartsengi

Áhersl­ur í orku­mál­um eru að breyt­ast á þann veg að í framtíðinni verður kapp lagt á að nýta betur afl frá þeim auðlind­um sem þegar hafa verið virkjaðar. Þar eru marg­ir val­kost­ir fyr­ir hendi og hefur HS Orka þegar hafið undirbúning að næstu stórframkvæmd fyrirtækisins en hún felst í því auka afkastagetu og nýtingu auðlindarinnar í Svartsengi.

Stækkun orkuversins í Svartsengi, SVA7, miðar að því að auka framleiðslugetu orkuversins úr 75 MW í 85 MW. Í orkuverinu verður ein framleiðslueining sem mun koma í stað nokkurra eldri véla og búnaðar. Með því að nýta gufu sem áður fór í eldri vélar eykst framleiðslugetan og viðhalds- og framleiðslukostnaður lækkar. Verkefnið er svipað að stærð og stækkun Reykjanesvirkjunar. Öll tilskilin leyfi eru í höfn og vinna við stækkunina er þegar hafin.