Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver HS Orku er opið alla virka daga frá 09-16

Almennir viðskiptavinir þurfa ekki að óttast rafmagnsleysi

Almennir viðskiptavinir HS Orku þurfa ekki að óttast rafmagnsleysi ef sú staða kemur upp að orkuver HS Orku í Svartsengi stöðvast vegna jarðhræringa eða eldgoss. Komi til þess að ekki verði mögulegt að framleiða raforku í Svartsengi mun raforka eftir sem áður berast viðskiptavinum HS Orku frá meginflutningskerfi Landsnets í gegnum hlutaðeigandi dreifiveitu.

GFR 0175

Almennir viðskiptavinir HS Orku þurfa ekki að óttast rafmagnsleysi ef sú staða kemur upp að orkuver HS Orku í Svartsengi stöðvast vegna jarðhræringa eða eldgoss. Komi til þess að ekki verði mögulegt að framleiða raforku í Svartsengi mun raforka eftir sem áður berast viðskiptavinum HS Orku frá meginflutningskerfi Landsnets í gegnum hlutaðeigandi dreifiveitu. Grindavík yrði þó mögulega undanskilin þar sem tenging bæjarins við meginflutningskerfið liggur um Svartsengi og sú tenging gæti laskast í eldsumbrotum. Unnið er að því að koma upp varaafli í Grindavík sem yrði ótengt Svartsengi.

Auk Svartsengis framleiðir HS Orka einnig raforku í Reykjanesvirkjun, Brú í Biskupstungum og Fjarðarárvirkjunum í Seyðisfirði auk þess sem fyrirtækið kaupir raforku frá fjölda smávirkjana og fer sú orka einnig inn á meginflutningskerfi Landsnets.

Raforkan sem seld er til viðskiptavina HS Orku berst því ekki frá einni tiltekinni virkjun heldur frá flutningskerfi Landsnets en þar inn fer nær öll raforka, sem framleidd er á Íslandi. Framleiðslugeta raforkukerfisins nægir til að halda uppi þjónustu við viðskiptavini jafnvel þótt ein virkjun framleiði ekki raforku tímabundið. Slíkt gerist í raun reglulega, bæði vegna bilana í einstökum virkjunum og vegna viðhalds.

Ef þær aðstæður skapast að heildarfarmleiðslugeta alls kerfisins raskast mun Landsnet skerða fyrst þá notendur sem kaupa skerðanlega raforku og því næst yrði unnið að því að draga úr notkun stórnotenda. Raforka til almennra notenda (heimili, stofnanir og smærri fyrirtæki) sem fer í gegnum dreifiveitur yrði óskert.

Það mun því ekki hafa áhrif á raforkuafhendingu til almennra viðskiptavina HS Orku þótt framleiðslugeta Svartsengis skerðist, hvort heldur er til lengri eða skemmri tíma.