Fara á efnissvæði
Aftur í yfirlit

25.08.2022

HS Orka og Hydrogen Ventures skrifa undir skilmálaskjal um vetnisframleiðslu í Auðlindagarði HS Orku

HS Orka og Hydrogen Ventures Limited (H2V) hafa náð samkomulagi um orkuverð og aðra skilmála vegna fyrirhugaðrar vetnisframleiðslu á Íslandi sem verður nýtt við framleiðslu metanóls í Auðlindagarði HS Orku.

Fyrirtækin skrifuðu undir viljayfirlýsingu í lok síðasta árs og er samkomulagið staðfesting á áframhaldandi vinnu fyrirtækjanna að því að koma framleiðslunni á fót. Áætlað er að framleiðsla geti hafist um áramótin 2025/2026

Orkuþörf H2V mun nema um 60 megavöttum úr jarðhita við framleiðslu á grænu metanóli auk þess sem meirihluti þess koldíoxíðs sem losnar frá vinnsluvæðum HS Orku verður nýtt í ferlinu. Áætluð fjárfesting er um 150 milljónir evra, sem samsvarar rúmum 20 milljörðum íslenskra króna.

Litið er til græns metanóls sem umhverfisvæns framtíðarorkugjafa, sérstaklega í sjóflutningum og í sjávarútvegi.  Ef afrakstur framleiðslunnar yrði nýttur innanlands myndi verkefnið því færa Ísland mun nær markmiði sínu um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Meira en 80% af orkunotkun Íslands byggir nú þegar á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita og vatnsafli. Markviss uppbygging innviða fyrir framleiðslu græns vetnis og metanóls getur, að mati forsvarsmanna H2V, gert Ísland að leiðandi þjóð á sviði endurnýjanlegrar og hreinnar orku með að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum fyrir endurnýjanlega orkugjafa.

Horacio Carvalho, framkvæmdastjóri H2V: „Síðan við kynntum verkefnið í lok síðasta árs hefur mikil vinna farið fram við að gera það að veruleika, auk þess sem eftirspurn eftir metanóli sem eldsneytis hefur aukist. Samstarf okkar og HS Orku hefur verið mjög gott og við erum spennt fyrir því að starfa áfram með þeim. Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr kolefnislosun sinni og við teljum að nýting metanóls í sjávarútvegi geti gegnt lykilhlutverki í því.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku: „Samstarfið við H2V hefur verið mjög gott og þær athuganir sem hafa verið gerðar staðfesta að þær auðlindir sem bjóðast í Auðlindagarðinum passa einstaklega vel við svona framleiðslu. Auk endurnýjanlegrar orku getum við séð H2V fyrir vatni og ekki síst koldíoxíði sem er nauðsynlegt við framleiðslu Metanóls.

Um HS Orku

HS Orka hefur verið leiðandi í framleiðslu á endurnýjanlegri orku í yfir 45 ár. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur hópur sérfræðinga með mikla reynslu á sínu sviði. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir, Orkuverið Svartsengi og Reykjanesvirkjun auk vatnsaflsvirkjunar á Brú í Tungufljóti.

Nýsköpun og frjó hugsun hefur ætíð verið grunnurinn í starfsemi fyrirtækisins og er grunnurinn að Auðlindagarðinum, þar sem við lögð er áhersla á að allir auðlindastraumar séu nýttir. Í dag starfa í Auðlindagarðinum 11 fjölbreytt fyrirtæki sem öll nota einhverja auðlindastrauma í beinni tengingu frá orkuverum HS Orku.

Um Hydrogen Ventures

www.hydrogenventures.co.uk

Hydrogen Ventures er dótturfélag Climate Change Ventures og er staðsett í Bretlandi.   Megináhersla Hydrogen Ventures snýr að framleiðslu á grænu vetni og rafeldsneyti (grænu ammoníaki og grænu metanóli) og býr fyrirtækið yfir sérfræðiþekkingu á fjármögnun verkefna.  Hydrogen Ventures vinnur sem stendur að verkefnum sem samsvara um 750 milljónum evra í fjárfestingaþörf.

 

Nánari upplýsingar veita

HS Orka

Jóhann Snorri Sigurbergsson

johann@hsorka.is

8559304

Hydrogen Ventures

Shone Woodfine

swoodfine@ccventures.co.uk

+44(0)7791 874745